Finnur Oddsson, forstjóri Nýherja, keypti 250 þúsund hluti í fyrirtækinu á genginu 12,6 krónur á hlut núna í morgun. Samtals nema viðskiptin 3.150.000 krónum. Þetta má sjá í tilkynningu frá fyrirtækinu til Kauphallarinnar .

Nýherji kynnti árshlutauppgjör sitt síðdegis í gær. Þar kom fram að fyrirtækið hefði hagnast 111 milljónir króna á fyrri árshelmingi og tekjur fyrirtækisins hefðu aukist um 16% milli ára.

Gengi hlutabréfa í Nýherja hefur tekið stökk það sem af er degi en þó í lítilli veltu sem telur sex milljónir króna. Nema viðskipti forstjórans því rúmlega helmingi dagsveltunnar.

Finnur á nú 1.230.566 hluti í fyrirtækinu og nemur virði hlutarins 15,9 milljónum króna miðað við núverandi gengi í Kauphöllinni.