Tekjur ríkissjóðs af fjármagnstekjuskatti námu í fyrra rétt rúmum 33 milljörðum króna og jukust þær um 57,9% á milli ára, að því er kemur fram í úttekt á greiðsluafkomu ríkissjóðs. Hafa tekjur af fjármagnstekjuskatti ekki verið meiri síðan árið 2009, en það ár voru settar reglur um arðgreiðslur til einstaklinga sem vinna við eigin atvinnurekstur. Reglan, sem almennt hefur verið kölluð 20/50 reglan, fól það í sér að úthlutaðan arð til einstaklinga sem vinna við eigin atvinnurekstur, umfram 20% af skattalegu eigin fé, skuli skattleggja þannig að 50% teljist til launatekna og 50% til fjármagnstekna.

Reglan var afnumin og rann úr gildi í árslok 2013 og segja endurskoðendur sem Viðskiptablaðið hefur rætt við að bæði setning reglunnar og afnám hennar hafi haft töluverð áhrif á hegðun eigenda þeirra fyrirtækja sem reglan tók til.

„Ég gæti trúað að haldið hafi verið aftur af arðgreiðslum og fjármagninu frekar haldið inni í fyrirtækinu. Þannig safnast upp fjármagn innan fyrirtækjanna sem ekki var tekið út úr þeim. Eftir breytingu laganna hefur þetta snúist við og arðgreiðslur aukist. Þá er í einhverjum tilvikum út greiddur út arður vegna hagnaðar sem skapaðist meðan reglan var í gildi,“ segir Sturla Jónsson hjá Grant Thornton.

Viðmælendur Viðskiptablaðsins gjalda þó varhug við því að sú ályktun sé dregin að auknar tekjur ríkissjóðs vegna fjármagnstekjuskatts megi eingöngu rekja til þessa. Skráð fyrirtæki og bankar hafi greitt út mikinn arð í fyrra og vegi það þungt. „Afnám 20/50 reglunnar hefur þó eflaust haft einhver áhrif, ef marka má þá reikninga fyrirtækja sem við höfum skoðað,“ segir Sigurður Páll Hauksson, forstjóri Deloitte.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .