*

þriðjudagur, 14. júlí 2020
Innlent 11. mars 2020 19:09

Fleiri vírusar að varast en COVID

Sérfræðingur segir margar hættur í tölvuöryggismálum þegar unnið er að heiman. Sífellt fleiri vinna heima vegna kórónuvírusins.

Júlíus Þór Halldórsson
Margir vinna að heiman þessa dagana vegna kórónufaraldursins, en mikilvægt er að huga vel að öryggismálum þeirrar vélar sem unnið er á að sögn Bjarka Traustasonar, öryggisráðgjafa hjá Advania.
epa

Hátt í 100 smit kórónuveirunnar COVID-19 hafa nú greinst hér á landi og mörg hundruð eru í sóttkví. Eins og gefur að skilja hefur þetta veruleg áhrif á vinnuveitendur þeirra sem um ræðir, en þau fyrirtæki sem geta reyna nú að nýta starfskrafta starfsmanna sinna í sóttkví heiman frá.

Bjarki Traustason, ráðgjafi í öryggismálum hjá Advania – sem sjálfur er í sóttkví og vinnur því að heiman – segir þær heimatölvur sem tengjast inn í fjarvinnukerfi óhjákvæmilega berskjaldaðri fyrir tölvuárásum en ef unnið væri á sérstaka vinnutölvu.

„Til dæmis bara það að vinna heima hjá þér í samnýttri heimilistölvu af því þú ert ekki með vinnutölvuna. Guð má vita hvað er uppsett á þeirri vél og hver staðan er á vörnum, uppfærslum og öðru slíku. Svo ferðu jafnvel að vinna í sameiginlegum drifum eða öðru, og þá gæti hver sem hefur aðgang að heimilistölvunni haft aðgang að þeim öllum líka.“

Huga þurfi því vel að því að kanna stöðu vírusvarnar- og uppfærslumála áður en unnið sé með mikilvæg trúnaðargögn annars staðar en í vinnutölvunni. „Það þarf að keyra uppfærslur, vera með vírusvarnir og halda þeim öllum uppfærðum, og þar fram eftir götunum. Sé það ekki gert myndast veirusýkingarhætta í tölvukerfinu, ef svo má að orði komast,“ segir Bjarki.

Bjarki segir þó lítið að óttast sé rétt staðið að málum. „Hægt er að koma í veg fyrir megnið af öryggisatvikum með uppfærðum vörnum.“

Hefur ekki áhyggjur af bönkunum
Bjarki hefur ekki miklar áhyggjur af stærri stofnunum á borð við bankana, en segir fæst minni fyrirtæki hafa efni á sambærilegum vörnum. „Ég myndi nú ekki hafa nokkrar áhyggjur af bönkunum. Þeir eru með það öflugar gagnalekavarnir að jafnvel þótt einhver kæmist þar inn – sem er mjög hæpið miðað við þær varnir sem ég veit að þeir eru með – þá ættu þær að grípa það.

Það er hinsvegar ekkert á færi meðalfyrirtækis að vera með alvöru gagnalekavarnir sem grípa það ef það eru fimm kennitölur og bankareikningur að fara út. Mikið af smærri fyrirtækjum eru ekki einu sinni búin að innleiða marglaga auðkenni.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér. Meðal annars efnis í blaðinu er:

 • Ný könnun Gallup fyrir Viðskiptablaðið um utanlandsferðir í skugga kórónufaraldurs.
 • Fjallað er um eignarhlut Róberts Wessman í Alvotech.
 • Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvár, er í ítarlegu viðtali.
 • COVID-19 neyðir flugfélög til að herða sultarólina.
 • Myndir af Ímark deginum, sem haldinn var hátíðlegur á dögunum
 • Farið er yfir leiðir til að takast á við efnahagsskell kórónuveirunnar
 • Úttekt á þróun fasteignamarkaðarins frá aldamótum og stöðu hans nú
 • Sagt er frá dómsmáli í tengslum við gjaldþrot Tölvuteks sem gæti haft víðtæk áhrif
 • Rætt er við fráfarandi forstjóra Farice um mikilvægi innviðauppbyggingar
 • Nýráðinn vinnsluráðgjafi Völku stefnir hátt
 • Óðinn fer yfir viðbrögð Seðlabankans við kórónufaraldrinum
 • Myntbreytingin 1981 kom aftan að seljendum hlutabréfa 32 árum seinna