*

sunnudagur, 20. júní 2021
Innlent 7. september 2020 12:03

Flestir fóru norður og austur

Lítill munur var á nýtingu herbergja á Norðurlandi og Austurlandi milli ára þrátt fyrir fækkun erlendra ferðamanna.

Ritstjórn
Akureyri var væntanlega vinsæll áfangastaður íslenskra ferðamanna í sumar.
Aðsend mynd

Frá því að heimsfaraldurinn skall á í aprílmánuði hafa gistinætur Íslendinga á íslenskum hótelum verið fleiri en ferðamanna, í fyrsta sinn frá 1997 samkvæmt Hagsjá Landsbankans upp úr tölum Hagstofunnar.

Þetta hélst í allt sumar þrátt fyrir fjölgun ferðamanna á ný í júní þegar landið fór að opnast aftur. Mest aukningin var í gistingu Íslendinga á Norðurlandi og Austurlandi, þar sem varð margföldun milli ára, eða um 552% og 674%, og nýting herbergjanna fór þar með í 70,8% og 73,3%.

Í fyrra var nýtingin 78,5% á Norðurlandi og 80,8% á Austfjörðum svo samdrátturinn í nýtingunni þar var 8,1% og 13,5% milli ára. Mesta fækkun gistinótta í heildina var á Suðurnesjum, 74,4%, og svo á höfuðborgarsvæðinu þar sem hún var 73,9%. Fækkunin á Suðurlandi var svo rúmlega helmingur.

Þessi munur endurspeglar því fyrst og fremst hvar Íslendingar gistu í sumar því fækkunin í gistingum ferðamanna var nokkuð jafn yfir landið, eða um 78%.

Engin fækkun herbergja á Vestfjörðum

Hins vegar minnkaði framboð hótelherbergja mikið samhliða vegna lokana hótela, eða um nærri helming milli mánaða því í mars voru 10.616 herbergi í boði en 5.778 í aprílmánuði. Í maí fjölgaði þeim á ný upp í 7.881 herbergi og í júlí var fjöldinn kominn í 8.547 herbergi.

Mesta fækkunin á framboði var á höfuðborgarsvæðinu, eða um 38,1% milli ára í júlí, en á Suðurnesjum var fækkunin 17,1% og á Suðurlandi 12,3% fækkun. Hins vegar voru litlar breytingar á framboði á Norðurlandi og Austurlandi þar sem eins og áður segir mesta eftirspurnin var um gistingu meðal Íslendinga í sumar.

Enginn samdráttur varð heldur á framboði herbergja á Vestfjörðum, en þar og á Vesturlandi fór nýting þeirra í 55,5%, meðan hún fór í 34,6% á höfuðborgarsvæðinu og 29,1% á Suðurnesjum.