Citigroup
Citigroup
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)
Bandaríski bankinn Citigroup hefur komist að samkomulagi um að greiða stjórnvöldum 285 milljónir Bandaríkjadala, um 33 milljarða króna. Verðbréfa- og kaupþingsnefnd Bandaríkjanna, SEC, sakaði bankann um að hafa blekkt fjárfesta með því að bjóða þeim að fjárfesta í afurðum sem snéru að húsnæðisskuldabréfum. Fréttastofa BBC greinir frá í dag.

Bankinn er sakaður um að hafa selt fjárfestum húsnæðislánavafninga, en sjálfur tekið stöðu gegn þeim. Fjárfestar voru ekki upplýstir um stöðu bankans gegn þeim.

Citigroup hefur því samið sig frá frekari dómsmálum vegna málsins. Bankinn hvorki staðfestir né neitar ásökunum yfirvalda. Credit Suisse samdi sig einnig frá viðlíka máli, og greiddi 2,5 milljónir dala án þess að staðfesta né neita ásökunum um blekkingar.