Stjórn norska flugfélagsins Norwegian ákvað í gær að segja upp Jacob Schram sem hefur verið forstjóri félagsins síðasta eina og hálfa árið. Fjármálastjórinn Geir Karlsen, sem leiddi fjárhagslega endurskipulagningu félagsins, mun taka við forstjórastólnum en hann gegndi stöðunni tímabundið árið 2019.

Karlsen sagði við norsku fréttaveituna E24 að ferlið hafi gengið hratt fyrir sig en samræður um breytingarnar hafi byrjað í síðustu viku.

Svein Harald Øygard, fyrrum bankastjóri Seðlabanka Íslands, var kjörinn stjórnarformaður Norwegian fyrr í mánuðinum. Hann sagði að Karlsen væri rétti aðilinn til að styrkja stöðu Norwegian sem lágfargjaldaflugfélag og koma félaginu aftur í sjálfbæra arðsemi.

Sjá einnig: Spenntur fyrir að leiða stjórn Norwegian

Norwegian fór nýlega úr greiðslustöðvun, sem félagið hefur verið í síðan í nóvember á síðasta ári. Flugfélagið hefur unnið að fjárhagslegri endurskipulagningu að undanförnu og hefur safnað rúmlega 6 milljarða norskra króna, jafnvirði 85 milljörðum íslenskra króna, í nýtt hlutafé. Með hlutafjáraukningunni komu nýir eigendur en sá stærsti er norski skipakóngurinn John Fredriksen sem hefur áður unnið með Karlsen.

Laun Karlsen verða um 64 milljónir íslenskra króna á ári, þriðjungi lægri en hjá forvera sínum. Þrátt fyrir tilraunir stjórnarinnar um að draga úr uppsagnargreiðslu til Schram, þá fær hann um tvö árslaun í sinn hlut.