Christine Lagarde, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, þrýsti í Berlín í Þýskalandi fyrr í dag á leiðtoga evruríkjanna að koma sér saman um lausnir á skuldakreppunni og aðgerðir til að koma í veg fyrir gjaldþrot Ítalíu og Spánar.

Lagarde sagði mikilvægt að stækka neyðarsjóð Evrópusambandsins sem lönd í vanda geta leitað til. Án hans geti svo farið að skuldsettustu ríkin lendi í greiðslufalli. Slíkt myndi hafa afdrifaríkar afleiðingar í för með sér fyrir heimshagkerfið, að sögn framkvæmdastjórans.

Lagarde lagði áherslu á að neyðarsjóðinum verði komið á laggirnar. Búist er við að í honum verði 500 milljarðar evra fyrsta kastið og verði reynt að stækka hann þegar fram í sæki. Þessi upphæð er þrátt fyrir allt ekki talin nægja verst settu evruríkjunum á borð við Ítalíu og Spáni, samkvæmt umfjöllun breska viðskiptadagblaðsins Financial Times um málið.