Framsóknarflokkurinn bætir enn við sig fylgi á kostnað Sjálfstæðisflokksins, samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallup, en greint er frá niðurstöðum könnunarinnar á vef Ríkisútvarpsins . Fylgi Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna breytist lítið frá síðustu könnun fyrir hálfum mánuði.

Könnunin var gerð á netinu og í gegnum síma dagana 14.mars til 1.apríl. Framsóknarflokkurinn nýtur mests fylgis, fengi 28,3% atkvæða ef kosið yrði nú, bætir við sig 2,8 prósentustigum frá síðustu könnun fyrir hálfum mánuði.

Næst kemur Sjálfstæðisflokkurinn með 22,4%, sem er 4,4 prósentustigum minna en fyrir hálfum mánuði, og ívið minna en flokkurinn fékk í kosningunum 2009. Samfylkingin fengi 15% samkvæmt könnuninni, um helming af því sem flokkurinn fékk í síðustu kosningum. Björt framtíð fengi 12,7% og Vinstri græn 8,5%. Fylgi Samfylkingar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna breytist lítið frá síðustu könnun.

Önnur framboð ná ekki 5% markinu og koma ekki inn manni. Næst því eru þó Píratar með 4,4%.