Unnið er að því innan stjórnkerfisins, einkum fjármálaráðuneytisins, að setja lög um gengistryggðu lánin sem Hæstiréttur dæmdi ólögmæt 16. júní sl.

Lögin myndu, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins, taka mið af nýlegum tilmælum Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins (FME), sem fela í stuttu máli í sér að lánin yrðu endurreiknuð aftur í tímann með lægstu óverðtryggðu vöxtum Seðlabankans.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er þrýst á það innan embættismannakerfisins að lögin verði samþykkt hið fyrsta. Þannig munu t.d. Seðlabankinn og FME vera mjög áköf um að lögin verði samþykkt auk þess sem embættismenn innan bæði viðskipta- og fjármálaráðuneytisins hafa tekið í sama streng.

Heimildir blaðsins herma einnig að Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og formaður Vinstri grænna, sé þessu samþykkur og vinni nú að því að vinna slíku frumvarpi pólitísks stuðnings. Það gæti hins vegar reynst erfitt því samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins eru deildar meiningar innan stjórnarflokkanna um hvort skynsamlegt sé að setja lögin eða bíða þess að Hæstiréttur dæmi um hvaða samningsvextir eigi að gilda.

Eins og fram hefur komið í umfjöllun Viðskiptablaðsins síðustu vikur hefur dómur Hæstaréttar um að gengistrygging lána sé ólögleg hrist upp í núverandi fjármálakerfi. Leiða má líkum að því að ef samningsvextir lánanna standi þrátt fyrir ólögmæti gengistryggingarinnar setji það stóran hluta fjármálakerfisins á hliðina, ef ekki kemur til eiginfjárframlags frá ríkinu.

Þetta er ástæðan fyrir því að nú er unnið að því að setja lög um lánin. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins óttast stjórnvöld að Hæstiréttur kunni að dæma samningsvextina, sem oft eru á bilinu 3-5%, gilda sem mun hafa fyrrnefndar afleiðingar fyrir fjármálakerfið og kalla á frekara eiginfjárframlag frá ríkinu.