Gengi hlutabréfa norska fjármálafyrirtækisins Storebrand hækkaði um 4,1% í morgun í kjölfar tilkynningar Kaupþings banka um að auka hlutafé bankans um 10% með hlutafjársölu í Svíþjóð til alþjóðlegra fjárfesta.

Kaupþing á 7,8% hlut í Storebrand og reikna sérfræðingar með því að bankinn muni nýta fjármagnið til þess að stækka með yfirtökum.

Einn sérfræðingur sagði það augljóst að Kaupþing hefði áhuga á því að vera á meðal fimm stærstu banka á Norðulöndum.

Í fréttatilkynningu segir Sigurður Einarsson, stjórnarformaður Kaupþings banka, að hlutafjáraukningin muni styðja við frekari vöxt bankans, jafnframt því sem eiginfjárgrunnur bankans styrkist.

"Takist þetta ætti fjármögnunarkostnaður bankans að lækka auk þess sem styrkari stoðum er skotið undir langtíma vaxtarstefnu bankans," sagði Sigurður.