Nýi Glitnir hefur í dag birt á vefsvæði sínu vinnuramma um úrlausnir fyrir fyrirtæki sem eiga í tímabundnum erfiðleikum. Vinnuramminn er settur fram í framhaldi af yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að bæta rekstrarumhverfi fyrirtækja frá 2. desember sl.

Í frétt bankans segir að framundan er mikil vinna við fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja og eru þar miklir hagsmunir þjóðfélagsins alls í húfi. "Mikilvægt er að ferlið sé gagnsætt og sanngjarnt og að stuðlað sé að aukinni samkeppni í atvinnulífinu. Koma þarf í veg fyrir að tímabundnir erfiðleikar og ósamkomulag kröfuhafa leiði til falls lífvænlegra fyrirtækja. Í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 2. desember um aðgerðir til að bæta rekstarumhverfi fyrirtækja hefur Nýi Glitnir komið sér upp sérstökum verklagsreglum um úrlausnir fyrir fyrirtæki sem eiga í tímabundnum erfiðleikum," segir í tilkynningu bankans.