*

miðvikudagur, 29. janúar 2020
Erlent 18. janúar 2018 17:05

Greiða um 4.000 milljarða í skatt

Apple hefur tilkynnt um að það nýti sér nýsamþykktar skattareglur Trump og flytja 350 milljarða dala til Bandaríkjanna.

Ritstjórn
Tim Cook, forstjóri Apple.
epa

Ákvörðun tæknifyrirtækisins Apple um að nýta sérstakt ákvæði í nýsamþykktum skattareglum Bandaríkjanna sem Donald Trump Bandaríkjaforseti og þingflokkur Repúblikana samþykktu á dögunum þýðir að félagið muni greiða 38 milljarða Bandaríkjadala eða sem nemur 3.928 milljarða króna í skatt.

Hefur fyrirtækið tilkynnt um að fyrirtækið hyggist í kjölfar nýju laganna koma upp nýrri starfsmiðstöð í landinu og ráða um 20 þúsund nýja starfsmenn til landsins. Segja þeir heildarframlag fyrirtækisins til bandarísks efnahags verði að andvirði 350 milljarða dala, eða sem nemur 36.180 milljarða íslenskra króna vegna ákvörðunarinnar. 

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um leyfir nýja skattalöggjöfin bandarískum fyrirtækjum að flytja erlendar tekjur heim á sérstakri undanþágu frá fyrri reglum sem hefðu skattað slíkar greiðslur. Samt sem áður verða viðbótargreiðslurnar vegna ákvörðunar fyrirtækisins að andvirði 38 milljarða dala eins og áður segir, og fram kemur í frétt CNBC.

Mun ekki hafa áhrif á skattakröfur ESB

Bloomberg fréttastofan segir að ákvörðun Apple muni ekki hafa áhrif á ákvörðun Evrópusambandsins um að krefjast þess að félagið greiði um 13 milljarða evra, eða 15,9 milljarða dala til írska ríkisins vegna vangoldinna skatta.

Írska ríkið hefur hins vegar enn ekki krafið fyrirtækið um greiðsluna og hyggst framkvæmdastjórn ESB færa írska ríkið fyrir dómstóla vegna tafanna. Greiðslurnar til írska ríkisins og ESB gætu verið frádráttarbærar frá þeim skatti sem Apple þarf að greiða til bandaríska ríkisins.

Stikkorð: Bandaríkin Apple Donald Trump Írland Skattar Bandaríkin