Greiningardeild Kaupþings spáir því að stýrivöxtum Seðlabankans verði haldið óbreyttum á vaxtaákvörðunarfundi Seðlabankans á fimmtudaginn kemur.

Þetta kemur fram í Hálffimm fréttum Kaupþings.

„Það er deginum ljósara að hagkerfið er á leiðinni í mjög hraða kólnun – hörð lending er brátt að verða staðreynd. Á þessum tímapunkti er því frekari hækkun stýrivaxta einfaldlega mjög óráðleg,“ segir í Hálffimm fréttum.

Greiningadeildin segir að þau rök sem Seðlabankinn hefur notað fyrir um 175 punkta hækkun vaxta á síðustu tveimur mánuðum hafa verið þau að um viðbrögð við gjaldeyriskrísu væri að ræða.

„Hvað sem um það má segja er ljóst að þau rök eiga vart við lengur. Verulegur árangur hefur náðst á gjaldeyrismarkaði með tilkomu skiptasamninga við þrjú Norðurlönd og líklegt að fleiri aðgerðir í þá veru séu væntanlegar. Af þeim sökum er erfitt að sjá að Seðlabankinn telji að frekari þörf sé á hækkun vaxta til þess að styrkja krónuna – fyrir utan það að stýrivextir hafa lítil sem engin áhrif á hið raunverulega vandamál, sem ríkir á gjaldeyrismarkaði, sem er það að skiptamarkaður liggur niðri,“ segir Greiningadeild Kaupþings í Hálffimm fréttum sínum í dag.

„Óvissan þó til hækkunar"

Greiningadeild Landsbankans spáir í Vegvísi í dag einnig óbreyttum stýrivöxtum þrátt fyrir háa verðbólgu. Óvissan í spá Landsbankans er þó til hækkunar.

Greiningadeildin segir mikla óvissu nú ríkja um horfur í efnahagsmálum og hagvísar bendi til þess að enn sé töluverður kraftur í neyslu og fjárfestingum. Þá segir Greiningadeildin að vinnumarkað vera þaninn, enda mælist atvinnuleysi aðeins 0,9%.

„Reynslan sýnir hins vegar að íslenska hagkerfið snýr hratt við og fram eru komin skýr merki um viðsnúning á fasteigna- og byggingarmarkaði. Alþjóðlega lausafjárkreppan veldur því auk þess að bankarnir eru tregir til útlána. Þrátt fyrir mikla verðbólgu teljum við því líklegast að Seðlabankinn haldi vöxtum sínum óbreyttum,“ segir Greiningadeild Landsbankans í Vegvísi í dag.