Að mati Greiningardeildar KB banka mun vísitala neysluverðs lækka um 0,2% í janúar sem þýðir að 12 mánaða verðbólga mun lækka úr 3,9% niður í 3,7%. Að þessu sinni eru tveir þættir sem togast á til hækkunar og lækkunar vísitölunnar. Annars vegar er um að ræða lækkanir vegna árlegra útsala og hins vegar árlegar hækkanir á ýmissi þjónustu, einkum hjá hinu opinbera.

Að mati Greiningardeildar munu lækkanir á fatnaði og skóm vegna útsala vera svipaðar og á seinasta ári og hafa 0,65% áhrif til lækkunar á vísitölu neysluverðs.. Einnig hefur eldsneyti lækkað töluvert en meðalheimsmarkaðsverð á 95 oktana bensíni er 15 til 17% lægra í desember en í nóvember. Auk þess hefur gengi krónunnar styrkst verulega á milli mánaða sem kemur fram í lægra innkaupsverði. Þannig er útsöluverð á 95 oktana bensíni 5 til 6 krónum lægra nú en í lok nóvember sem hefur 0,2% áhrif á vísitölu neysluverðs til lækkunar.

Byggt á Hálffimm fréttum KB banka.