Breskur dómstóll samþykkti í dag beiðni Skilanefndar Landsbanka Íslands hf. um greiðslustöðvun BG Holding ehf.   Ráðgjafar frá PricewaterhouseCoopers voru tilnefndir tilsjónarmenn að beiðni Skilanefndar Landsbanka Íslands hf.

Eins og fram hefur komið þá dró stjórn Baugs til baka beiðni um greiðslustöðvun BG Holding ehf. á Íslandi. Í tilkynningu kemur fram að skilanefnd Landsbanka Íslands hf telur það skynsamlega ákvörðun og telur að leiðin sem hún valdi, að óska eftir greiðslustöðvun í Bretlandi, sé best til þess fallin að tryggja hagsmuni kröfuhafa og stuðli að stöðugleika félaganna sem um ræðir.

"Greiðslustövun í Bretlandi skapar mesta öryggið fyrir félögin og hámarki þau verðmæti sem í húfi eru.  Skilanefnd Landsbankans mun ekki andmæla greiðslustöðvun annarra fyrirtækja Baugs Group á Íslandi, enda liggja hagsmunir bankans fyrst og fremst í eignum BG Holding í Bretlandi," segir í tilkynningu.

Lárus Finnbogason formaður Skilanefndarinnar segir við sama tækifæri.  „Við teljum að skipan tilsjónarmanna með BG Holding ehf. sé besta leiðin til að tryggja stöðugleika og rekstur fyrirtækjanna sem félagið á hluti í.  Okkar verkefni er að hámarka verðmæti eignanna til lengri tíma litið og munum styðja framkvæmdastjórnir félaganna dyggilega til að ná því markmiði.“