Guðný María Jóhannsdóttir tekur við starfi framkvæmdastjóra viðskiptaþróunarsviðs Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar ohf. í lok mars nk. en Hrönn Ingólfsdóttir sem gegnt hefur því starfi hefur óskað eftir að láta af störfum. Þetta kemur fram á heimasíðu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar.

Guðný María er fædd árið 1980 og lauk B.S. prófi frá Viðskiptaháskólanum á Bifröst árið 2003. Guðný María hóf störf hjá Flugstöð Leifs Eiríkssonar í apríl 2004 sem verkefnastjóri á fjármálasviði. Í júní 2007 tók Guðný svo við starfi markaðsstjóra. Guðný María er í sambúð með Gunnari Agli Sigurðssyni rekstrarstjóra og saman eiga þau eitt barn.

Hrönn var ráðin til Flugstöðvarinnar í júlí 2002, fyrst sem forstöðumaður markaðssviðs, en tók við starfi framkvæmdastjóra á nýju viðskiptaþróunarsviði í nóvember 2006.