Gylfi Þór Sigurðsson segir veðrið og fótboltann á Spáni alltaf hafa heillað. Síðasta sumar samdi Gylfi við Swansea til fjögurra ára og líkar vel. „Mig langaði alltaf að spila á Spáni en maður veit ekki hvað gerist. Eins og staðan er í dag sé ég mig ekkert fara frá Englandi nema síðustu tvö eða þrjú árin á ferlinum. Þá er ég að horfa til Bandaríkjanna eða Dubai og breyta algjörlega til. En næstu sex eða sjö árin verð ég bara á Englandi nema eitthvað allt annað myndi gerast,“ segir Gylfi sem segist þó vilja ná einu til tveimur árum með FH á Íslandi áður en hann leggur skóna á hilluna.„ Annars mun ég eyða fyrstu árunum eftir að ferlinum lýkur að slappa af, spila golf og ferðast um heiminn.“

Hvað er það við spænska boltann sem heillaði?

„Þar er frábær fótbolti spilaður og spennandi að fá að spila með liðum eins og Real Madrid og Barcelona. Já og vera í frábæru veðri að spila fótbolta.“

Hefurðu hugsað þér hvað muni taka við eftir ferilinn, hefurðu áhuga á þjálfun sjálfur?

„Ég er svolítið ungur ennþá til að spá í því en ég væri kannski til í að þjálfa yngri krakka. Ég væri til í að vera með lítinn hóp af strákum á aldrinum sex til sjö ára og þjálfa þá svo alla leið upp í þriðja flokk. Það heillar mig ekki að þjálfa meistaraflokk eins og er, kannski kemur það þegar maður eldist.“