Æðstu stjórnendur Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis (Spron) neituðu að horfa í augu við stöðu sparisjóðsins og virðast ekki hafa upplýst almenna starfsmenn um hana áður en Fjármálaeftirlitið tók hann yfir, að sögn Gylfa Magnússonar, dósents við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Hann var viðskiptaráðherra þegar örlög Spron réðust í mars árið 2009. Hann fullyrðir að ekki hafi verið hægt að hindra fall Spron á sínum tíma þar sem sparisjóðurinn átti ekki fyrir skuldum og glímdi við alvarlegan rekstrarvanda. Fullyrðingar þess efnis að hann hafi beitt þrýstingi til að fella sparisjóðinn sé uppspuni frá rótum.

Segja ríkisvaldið hafa fellt Spron

SPRON
SPRON
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Í nýrri bók um sögu Spron, Hugsjónir, fjármál og pólitík. Saga Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis í sjötíu og sjö ár, segir að margt bendi til að þess að komast hefði mátt hjá falli sparisjóðsins. Í stað þess að koma honum til hjálpar beitti ríkisvaldið handaflsaðgerð til að knésetja hann. Ráðamenn, þar á meðal Gylfi eru sakaðir um að hafa lokað augunum fyrir björgunaraðgerðum stjórnenda Spron og lánardrottna sparisjóðsins, ekki vílað fyrir sér að færa í stílinn og farið með rangt mál í tengslum við málefni sparisjóðsins fyrir fall hans. Í bókinni er stuðst við fjölda heimilda, svo sem fundargerðir stjórnar Spron auk minnispunkta og annarra heimilda sparisjóðsstjóranna Baldvins Tryggvasonar og Guðmundar Haukssonar auk Jóns G. Tómassonar, fyrrverandi borgarlögmanns og formanns stjórnar Spron um árabil. Tekið er fram í niðurlagi bókarinnar hverjir hafi ekki viljað tjáð sig um málið við höfund bókarinnar auk þess bankaleynd lokaði dyrunum að ýmsum heimildum.

Hafði verið í viðskiptum við Spron frá barnsaldri

Gylfi Magnússon skrifar í tölvuskeyti til VB.is af og frá að hann hafi sem viðskiptaráðherra beitt einhvers konar pólitískum þrýstingi til að knésetja sparisjóðinn. Allar slíkar fullyrðingar sé tilhæfulausar.

„Það var mér ekkert kappsmál á þessum tíma að SPRON færi í þrot og ég beitti mér ekki á neinn hátt fyrir því. Þvert á móti þótti mér afar leitt að svona skyldi fara. Ég hafði sjálfur verið í viðskiptum við þennan sparisjóð allt frá því ég var barn og hafði ekki nema gott eitt um sjóðinn og hans ágætu starfsmenn að segja sem almennur viðskiptavinur,“ skrifar Gylfi.

Tilraun til að endurskrifa söguna

Hann heldur áfram:

„Ég hafði ekki á nokkurn hátt áhrif á þá sérfræðinga og stjórnendur Fjármálaeftirlits og Seðlabanka sem fjölluðu um mál SPRON á þessum tíma og fjarstæðukennt að ég hafi reynt að beita þá þrýstingi. Fullyrðingar í þá veru eru uppspuni frá rótum. Þeir komust einfaldlega að þeirri augljósu niðurstöðu án minnar aðstoðar að sparisjóðnum væri ekki við bjargandi. Á þessum tíma átti SPRON ekki fyrir skuldum, langt frá því, og var í verulegum vandræðum með laust fé, raunar var ekki ljóst hvort það dygði frá degi til dags. Ekki bætti úr skák að æðstu stjórnendur sjóðsins neituðu að horfast í augu við stöðuna og virðast ekki hafa upplýst almenna starfsmenn um hana. Þá hafði legið fyrir allt frá því fyrir bankahrun að rekstur sparisjóðsins væri vonlaus og átti þess vegna að sameina hann Kaupþingi haustið 2008 en ekkert varð af því vegna falls Kaupþings. Það knésetti því enginn SPRON nema auðvitað þeir sem stjórnuðu sparisjóðnum síðustu árin í langri sögu hans. Tilraunir til að endurskrifa söguna og leita annarra til að kenna um fall sjóðsins eru ekki pappírsins virði.“