Franska ríkisstjórnin kynnti í dag áform um að hækka lágmarks lífeyristökualdur úr 62 árum í 64 ár jafnt og þétt fram til ársins 2030, þrátt fyrir hótanir verkalýðsfélaga um víðtækar verkfallsaðgerðir. Fyrsta breytingin tekur gildi 1. september næstkomandi.

Frakkland er með einn lægsta lífeyristökualdurinn meðal vestrænna landa og eyðir nærri 14% af vergri landsframleiðslu í ellilífeyri, samkvæmt OECD.

Erlendir fjölmiðlar lýsa því að áform ríkisstjórnarinnar muni reyna verulega á Emmanuel Macron Frakklandsforseta en fjórir af hverjum fimm Frökkum eru andvígir breytingunum.

Macron hét því að umbreyta lífeyriskerfinu þegar hann tók við embætti forseta árið 2017. Hann vék frá fyrstu tilraun sinni árið 2020 vegna Covid-faraldursins.

Í umfjöllun Reuters segir að leiðtogar helstu verkalýðsfélaga Frakklands muni funda saman í kvöld um mótmæli og verkfallsaðgerðir.

„Ég er meðvituð um að breytingar á lífeyriskerfinu okkar vekja upp spurningar og ótta meðal Frakka,“ sagði Elisabeth Borne, forsætisráðherra Frakklands í dag.

Hún bætti við að ríkisstjórnin muni vinna að því að sannfæra almenning um að breytingarnar séu nauðsynlegar og til þess fallnar á koma jafnvægi á franska lífeyriskerfinu.