Nýstofnaður fjölmiðill Jóhannesar Kr. Kristjánssonar og Aðalsteins Kjartanssonar, sem unnið hefur að fréttaflutningi um Panama-skjölin svokölluðu, hefur safnað 96.244 evrum eða 13,47 milljónum króna á Karolina Fund . Það er langt fram yfir upprunalegt markmið þeirra, sem var 40 þúsund evrur eða 5,6 milljónir króna.

Markmið Reykjavik Media, eins og því er lýst á söfnunarsíðu þeirra, er að leggja áherslu á óvægna rannsóknarblaðamennsku. Jóhannes og Aðalsteinn hafa þá þegar vakið mikla athygli fyrir umfjöllun sína um fyrrnefnd Panama-skjöl.

Í Kastljósþætti á vegum Reykjavik Media og RÚV var meðal annars fjallað um tengsl stjórnmálamanna á borð við Sigmundar Davíðs, Bjarna Benediktssonar og Ólafar Nordal við aflandsfélög í skattaskjólum.

2640 manns hafa stutt við miðilinn enn sem komið er en þrettán dagar eru enn eftir af söfnuninni. Mismunandi fríðindi fylgja fjárstyrkjunum sem valkostur er á hjá Karolina Fund, eins og vanalegt er á vefsíðunni - leggi maður til 5000 evrur eða 710 þúsund krónur fær maður til dæmis að spjalla í klukkustund við ritstjóra og fréttamenn Reykjavik Media.