Bandaríski bílaframleiðandinn General Motors tilkynnti í gær að hagnaður hefði verið á rekstri félagsins á síðasta ársfjórðungi. Hagnaðurinn nam 950 milljónum Bandaríkjadala, samanborið við 6,6 milljarða dollara tap árið áður, en um þessar mundir stendur yfir endurskipulagning á allri starfsemi fyrirtækisins í Norður-Ameríku.

Hins vegar viðurkenndu stjórnendur General Motors að þessi afkoma væri ekki ásættanleg, miðað við þær miklu sparnaðaraðgerðir sem fyrirtækið hefur ráðist í.