Hagnaður Landsbanka Íslands á síðasta ári nam 40,2 milljörðum króna eftir skatta og jókst um 61%. Hagnaður fjórða ársfjórðungs var 14,1 milljarður króna. Arðsemi eigin fjár eftir skatta á síðasta ári var 36,3%.

Í tilkynningu bankans kemur fram að grunntekjur samstæðunnar (vaxtamunur og þjónustutekjur) námu tæpum 70 milljörðum króna og jukust þær um 30 milljarða króna eða 76%. Kostnaðarhlutfall tímabilsins reiknast 43,2%.

Gengismunur og fjárfestingatekjur námu 19,6 milljörðum króna samanborið við 21,3 milljarða króna á árinu 2005.

Tekjur af erlendri starfsemi námu 46,6 milljörðum króna eða 52% af heildartekjum samanborið við 10,4 milljarða króna og 17% á árinu 2005. Er þetta í fyrsta sinn sem tekjur af erlendri starfsemi eru hærri en á Íslandi.

Heildareignir bankans námu 2.173 milljörðum króna í árslok 2006. Heildareignir bankans í evrum námu 23,2 milljörðum í lok árs 2006 samanborið við 18,8 milljarða evra í byrjun ársins.

Innlán viðskiptavina jukust um 104% á árinu og námu 683 milljörðum króna í árslok 2006. Nema innlánin tæplega 50% af heildarútlánum til viðskiptavina. Eiginfjárhlutfall (CAD) var 14,8% í árslok 2006. Eiginfjárþáttur A var 13,0%.



Helstu niðurstöður fjórða ársfjórðungs 2006:

Hagnaður eftir skatta var 14,1 milljarður króna.

Hreinar rekstrartekjur fjórða ársfjórðungs námu 24,8 milljörðum króna samanborið við 18,5 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi.

Kostnaðarhlutfall fjórða ársfórðungs 2006 reiknast 44,4%.

Útlán til viðskiptavina jukust um 135 milljarða króna á fjórða ársfjórðungi á meðan innlán frá viðskiptavinum jukust um 170 milljarða króna.