Hampiðjan hefur ásamt útgerðafélaginu P/f Varðin í Syðri Götu í Færeyjum keypt 90% hlut í netaverkstæðinu Spf Sílnet i Klaksvik á Borðey. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hampiðjunni.

Seljendur eru stofnandinn Kristian Sofus og tveir meðeigendur hans. Kristian heldur eftir 10% hlut og starfar áfram hjá fyrirtækinu eftir kaupin og verður framleiðslustjóri fyrirtækisins. Hlutur Hampiðjunnar og Varðin skiptist jafnt í tvo 45% hluti. Kaupverð Hampiðjunnar á sínum hlut er 0,6 milljónir DKK, en það jafngildir um 12,5 milljónum íslenskra króna.

Samhliða kaupunum þá er hlutafé félagsins aukið umtalvert til að gera því kleift að kaupa hentuga byggingu og þann tækjabúnað sem þarf á netaverkstæðið til að sinna viðhaldi á flottrollum og nótum. Hlutafjáraukningin er 3,0 milljónir DKK frá hvoru félagi fyrir sig eða 6,0 milljónir DKK alls.

„Hampiðjan hefur framleitt og selt Gloríu flottroll og flottrollspoka til allflestra uppsjávarskipa Færeyinga undanfarin ár ásamt því að selja Dynex Togtaugar og Dynex Data höfuðlínukapla á nýjustu skip flotans. Samstarf okkar við Færeyinga hefur verið afar ánægjulegt og það er okkur því mikið gleðiefni að geta nú þjónustað færeyska fiskveiðiflotann á heimavelli í samstarfi við Varðin sem er eitt öflugasta útgerðafyrirtæki Færeyja og Kristian Sofus í Lambanum stofnanda Sílnets,“ segir Hjörtur Erlendsson, forstjóri Hampiðjunnar.