KSH Fasteignir ehf., hefur keypt fasteignina við Kirkjustræti 2, sem áður hýsti starfsemi og gistiheimili Hjálpræðishersins í rúma öld. Seljandi Kirkjustrætis er Kastali fasteignafélag sem er í eigu sjóðs í rekstri hjá GAMMA en Fyrirtækjasalan Suðurver annaðist söluferlið.

Í tilkynningu kemur fram að kaupandinn sé víetnamskt - íslenskt fjölskyldufyrirtæki sem reki keðju víetnamskra veitingahúsa og matvörumarkaða og muni á vormánuðum opna mathöll í húsnæðinu við Vesturgötu 2, sem áður hýsti Kaffi Reykjavík. Sömu aðilar og eiga KSH Fasteignir reka veitingahúsakeðjuna Pho sem er með veitingastaði við Suðurlandsbraut, Laugaveg, Tryggvagötu og Skólavörðustíg.

Í tilkynningu segir að nýir eigendur sjái tækifæri í jákvæðri þróun miðborgarinnar og þess vaxtar sem framundan sé í ferðaþjónustu. Kaupandi hyggst endurnýja húsið í samræmi við nútímakröfur en halda bæði í upprunalegt útlit og skipulag hússins sem rúmar 53 gistiherbergi auk stuðningsrýma. Gert er ráð fyrir að efri hæðir Kirkjustrætis 2 hýsi áfram almennan gistirekstur en á jarðhæð verði móttaka og veitingasala ásamt því sem hinn rómaði veislusalur verði notaðu undir veitingastarfsemi, viðburði og þjónustu. Í kjallara er aðaleldhús auk stuðningsrýma.

Húsið, sem er fyrsta stórvirki Einars Erlendssonar arkitekts í steysteypu, var reist árið 1916 og hækkað 1930, en það var sérhannað fyrir starfsemi og höfuðstöðvar Hjálpræðishersins. Húsið hefur jafnan verið talið bæði fallegt og vel byggt ásamt því að vera einn af hornsteinum og með þekktari kennileitum á þessu svæði miborgarinnar, að því er fram kemur í tilkynningu.