Í yfirstandandi söluferli á hlutafé í Byr hf. er verið að selja nýtt hlutafé, ekki hlutafé kröfuhafa Byrs sparisjóðs né ríkisins. Áhugasamir geta keypt hlutafé fyrir allt að 14,6 milljarða króna að nafnvirði en er auk þess frjálst að bjóða í hlutafé slitastjórnar og íslenska ríkisins vilji þeir eignast bankann að fullu. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins á að skila inn óskuldbindandi tilboðum í næstu viku og salan á að vera frágengin um miðjan júlí. Viðskiptablaðið hefur fengið staðfest að Kaupþing, Arion banki, Íslandsbanki og MP banki ætla allir að kynna sér málið auk þess sem vonast er til þess að áhugi verði erlendis frá.

Auka hlutafé um 30 milljarða

Á hluthafafundi Byrs þann 15. apríl síðastliðinn fékk stjórn bankans heimild til að auka hlutafé hans um allt að 30 milljarða króna að nafnvirði. Hlutafé bankans er í dag 900 milljónir króna og allt í eigu íslenska ríkisins. Samkvæmt samkomulagi sem náðist við slitastjórn Byrs sparisjóðs í október í fyrra fá þeir 16,3 milljarða hluti í endurgjald fyrir þær eignir sem þrotabúið lagði nýja Byr til.

Afgangurinn, allt að 14,6 milljarðar að nafnvirði, er til sölu í því söluferli sem nú stendur yfir hjá Byr. Takist að selja allt viðbótarhlutaféð mun það þynna eignarhlut slitastjórnarinnar í Byr úr 94,7% í tæp 53%. Eignarhlutur ríkisins myndi þynnast úr 5,3% í 2,9%.

Því er það hlutafé í Byr sem kröfuhafar fyrirrennara Byrs sparisjóðs eiga, og slitastjórn hans á að halda um fyrir þeirra hönd, ekki beint til sölu í yfirstandandi söluferli.

Það þýðir þó ekki að áhugasamir kaupendur geti ekki samið við aðra eigendur Byrs, íslenska ríkið og slitastjórn Byrs sparisjóðs, um að kaupa þeirra hluti ef áhugi er fyrir því að eignast bankann að öllu leyti.

Tilboð í næstu viku

Tilkynnt var um að sala á hlutafé í Byr hf. væri að hefjast í síðustu viku. Á mánudag var síðan opnað rafrænt gagnaherbergi þar sem áhugasamir kaupendur geta nálgast ákveðnar upplýsingar um stöðu Byrs. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins geta viðkomandi hvorki prentað né vistað skjöl sem þeir skoða í gagnaherberginu auk þess sem IP-tölur viðkomandi er ætið sýnileg á því skjali sem hann er að skoða.

Þá eru öll skjölin á ensku vegna þess að búist er við áhuga erlendis frá.

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að óskuldbindandi tilboð þeirra sem ætli sér að fara áfram í söluferlinu þurfi að liggja fyrir í næstu viku. Stjórn og stjórnendur Byrs muni í kjölfarið velja einhverja úr þeim hópi sem skilar slíku tilboði til að halda áfram í ferlinu. Þeir sem valdir verða til áframhaldandi þátttöku fá þá aðgang að ítarlegri gögnum um bankann.

Jón Finnbogason,forstjóri Byrs, segir að vonir standi til þess að söluferlinu öllu ljúki um miðjan júlímánuð. „Við erum búnir að undirbúa þetta ferli vel en mér er óheimilt að segja hversu margir aðilar taka þátt í því.“

Nánar um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak undir Tölublöð.