Áhugi erlendra fjárfesta á japönskum fyrirtækjum hefur aukist verulega undanfarin misseri, en hlutur þeirra á japanska hlutabréfamarkaðinum mældist 28% í mars síðastliðnum - úr 26% fyrir ári síðan - og hefur aldrei verið meiri, að því er fram kemur í nýjum tölum sem kauphöllinn í Tókýó ásamt fjórum öðrum minni kauphöllum sendu frá sér í gær. Í upphafi tíunda áratugarins var þetta hlutfall aðeins 4,7%.

Í frétt Financial Times í gær segir að alþjóðlegir fjárfestar vonist eftir því að þessi þróun muni leiða til þess að áhrifa vestræns kapítalisma fari að gæta í auknum mæli í japönsku efnahagslífi, ekki síst þegar kemur að samskiptum hluthafa við stjórnir japanska fyrirtækja en í þeim efnum hafa japanskir hluthafar ekki vanist því að hafa jafn mikil afskipti af stjórnun fyrirtækjanna og þekkist á Vesturlöndum.

Vonast eftir hugarfarsbreytingu hluthafa
Fjárfestar eru að veðja á að japanska hagkerfið muni taka hressilega við sér á næstu árum eftir þá viðvarandi stöðnun sem hefur ríkt frá því í byrjun tíunda áratugarins þar í landi og að gengi undirverðlagðra fyrirtækja á hlutabréfamarkaði hækki jafnframt á næstunni. Í samtali við Financial Times segir Patrick Mohr, forstöðumaður greiningardeildar Nikko Citigroup, að útlendingar hafi einnig fjárfest í japönskum hlutabréfum sökum væntinga um að einkaneysla almennings fari að taka við sér samhliða því að hagvöxtur í landinu aukist - en slíkt á hins vegar enn eftir að gerast svo einhverju nemi. Bandaríski fjárfestingarbankinn Goldman Sachs hefur bent á það að evrópskir fjárfestar séu mun svartsýnni heldur en bandarískir og asískir fjárfestar um efnahagshorfur í Japan. Í LEX dálki Financial Times segir að fjárfestingar erlendra aðila á japanska markaðinum undanfarin misseri séu að mestu leyti byggðar á væntingum; markaðurinn er enn hlutfallslega fremur dýr og afkoman er sömuleiðis töluvert lægri samanborið við aðra hlutabréfamarkaði.

Sumir fjárfestingarsjóðir hafa keypt japönsk hlutabréf í þeirri von að geta krafist hærri arðgreiðslna og þrýsta auk þess á stjórnir fyrirtækjanna til að skila meiri hagnaði. Að mati sérfræðinga um japanska markaðinn endurspeglar aukið hlutfall erlendra fjárfesta væntingar um að þær reglur og venjur sem gilda um hluthafa á Vesturlöndum fari von bráðar að festa rætur í japönsku efnahagslífi. Andrew Hunter, aðstoðarframkvæmdastjóri japanskra verðbréfa hjá UBS, segir í samtali við Financial Times að það sé aðeins eðlileg og óumflýjanleg þróun að hinir nýju erlendu hluthafar muni krefjast þess að stjórnun og rekstur japanskra fyrirtækja færist nær því sem þekkist í Bandaríkjunum og Evrópu, meðal annars aukin áhersla á að greiða hluthöfum hærri arðgreiðslur.