Viðskiptaþvinganir gegn stjórnvöldum í Kína, sem beint yrði að tilteknum bönkum þar í landi og myndu útiloka þá frá hinu alþjóðlega fjármálakerfi, eru nú sagðar í bígerð innan bandaríska stjórnkerfisins.

Hugsunin er að beita stjórnvöld í Peking þrýstingi með möguleikanum á slíkum aðgerðum til að láta af stuðningi sínum við hergagnaframleiðslu Rússlands.

Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Anthony Blinken, hélt til kínversku höfuðborgarinnar í gær í þeim erindagjörðum, en ekki er talið útséð með hvort jafnvel eitt beittasta vopnið í diplómatísku vopnabúri stjórnvalda í Washington muni duga til að fá Kína til að gefa frá sér þær flóknu en ábatasömu viðskiptafléttur sem spilað hafa lykilhlutverk í enduruppbyggingu rússneska hersins eftir tvö ár af dýrkeyptum átökum í Úkraínu.