Opinberar skuldir munu tvöfaldast næstu fimm árin samkvæmt fjármálaáætlun fjármála- og efnahagsráðherra 2021-2025, með samtals ríflega 1.200 milljarða hallarekstri yfir tímabilið. Afleiðingarnar munu ráðast af því hversu vel ríkið heldur á spilunum, vöxtum og framvindu heimsfaraldursins.

Um síðustu áramót námu skuldir hins opinbera 28% af vergri landsframleiðslu eða um 830 milljörðum króna samkvæmt skuldareglu laga um opinber fjármál, sem felur í sér frádrátt lífeyrisskuldbindinga, viðskiptaskulda, sjóða og bankainnistæða. Þótti það afar góð staða, í sögulegu og alþjóðlegu samhengi, enda hafði ríkinu áskotnast verulegir fjármunir á síðustu árum í formi stöðugleikaframlaga slitabúa föllnu bankanna, sem notuð voru til að greiða niður skuldir ríkisins.

Í þingsályktunartillögu að fjármálaáætlun næstu fimm árin er nú gert ráð fyrir að hlutfall skulda af landsframleiðslu á þann mælikvarða muni ríflega tvöfaldast á tímabilinu. Sem kunnugt er hefur ríkið ráðist í fordæmalausar björgunar- og örvunaraðgerðir vegna heimsfaraldursins sem nú ríður yfir, með tilheyrandi kostnaði.

Áætlunin gerir ráð fyrir 269 milljarða króna halla á rekstri ríkissjóðs í ár, eða 9,4% af landsframleiðslu, en í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2020 sem samþykkt var síðasta haust var gert ráð fyrir 400 milljóna króna afgangi.

Þrátt fyrir þessi miklu útgjöld, og þann 32 milljarða halla sem sveitarfélögin bæta við hallarekstur hins opinbera, gerir nýleg Þjóðhagsspá Hagstofunnar – sem stuðst er við í fjármálaáætlun – ráð fyrir 7,6% samdrætti landsframleiðslu í ár. Róður opinbers rekstrar verður því áfram þungur næstu ár, með um 300 milljarða króna halla á næsta ári, sem síðan fer að draga nokkuð úr milli ára.

Opinberar skuldir
Opinberar skuldir
© vb.is (vb.is)

Skuldahlutfall nái hámarki í 59%
Fjármálaáætlun gerir ráð fyrir hallarekstri út tímabilið, með tilheyrandi skuldasöfnun, og í lok árs 2025 er gert ráð fyrir að opinberar skuldir verði 2.254 milljarðar króna eða 59% af landsframleiðslu, en taki síðan að lækka á ný á þann mælikvarða.

Sá viðsnúningur er skilgreindur sem markmið í áætluninni, en til að ná því er gert ráð fyrir „afkomubætandi ráðstöfunum“ upp á 37,5 milljarða árlega á síðustu þremur árum tímabilsins, sem ekki eru útfærðar nánar. Getur þar verið um að ræða hvort heldur sem er, aukna tekjuöflun, eða lækkun útgjalda, en heimildir Viðskiptablaðsins herma að horft sé til þess að ráðist verði í sitt lítið af hvoru. Væri ekki ráðist í ráðstafanirnar, er gert ráð fyrir að skuldir yrðu 65% landsframleiðslu í lok tímabils, og héldu enn áfram að hækka að því loknu.

Í álitsgerð fjármálaráðs um áætlunina, sem birt var í síðustu viku, er kallað eftir auknu gagnsæi. Er það ekki síst sagt mikilvægt í ljósi þess að svokallaðri afkomureglu, skuldareglu og skuldalækkunarreglu hafi öllum verið vikið til hliðar tímabundið vegna ástandsins. Aðeins er heimilt að gera það í þrjú ár að hámarki samkvæmt núgildandi lögum, en Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hyggst leggja til lagabreytingu sem framlengi þá heimild um þrjú ár til viðbótar.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .