Icelandair hóf að fljúga til Edmunton í Kanada í byrjun mars á þessu ári, en fram að því höfðu evrópsk flugfélög sýnt þessari fimmtu fjölmennustu borg Kanada lítinn áhuga. Eina flugið til Evrópu sem í boði var frá borginni var með Air Canada, en flugfélagið hætti hins vegar að fljúga þessa leið eftir að Icelandair tilkynnti að félagið hefði bætt flugleiðinni við hjá sér.

Túristi greinir frá því að nú muni Icelandair fá samkeppni um flug frá borginni til Evrópu því KLM, eitt stærsta flugfélag Evrópu, hefur tilkynnt að það muni hefja áætlunarflug milli Amsterdam og Edmunton. Hollenska flugfélagið mun, líkt og Icelandair, fljúga á milli fjórum sinnum í viku, en mun þó notast við stærri þotur en Icelandair hefur yfir að ráða.