Icelandair Group skoðar nú hvort mögulegt sé að komast undan kaupskyldu félagsins við flugvélaframleiðandann Boeing á þeim tíu 737-MAX-flugvélum sem félagið á pantaðar en ekki hafa verið afhentar.

Nú þegar hefur Icelandair tekið á móti sex vélum sem kyrrsettar hafa verið frá því í mars í fyrra, frá þessu er sagt í Morgunblaðinu.

Icelandair er ekki bundið af því að taka á móti þremur vélum sem félagið átti að fá afhent á fyrsta ársfjórðungi 2019. Nú telja stjórnendur félagsins ástæðu til að þess að ganga út úr samningunum um þær sjö vélar sem afhenda átti í ár og á næsta ári.

Heimildir Morgunblaðsins herma að Icelandair telji vænlegra á þessum tímapunkti að halda áfram að notast við 757-200-vélar og lengur en áætlanir gerðu ráð fyrir. Þær þyki hagkvæmari kostur meðan eldsneytisverð helst jafn lágt og verið hefur.