IFS Greining spáir því að Seðlabankinn lækki stýrivexti um 100 punkta en innlánsvexti um 50 punkta en Seðlabankinn kynnir vaxtaákvörðun sína á morgun.

Rökin á bak við spá IFS liggja í stöðugu gengi undanfarið og hagstæðum verðbólgutölum fyrr í dag.

Innlánsvextir Seðlabanka standa nú í 8,5% og svokallaðir „stýrivextir” eða veðlánavextir í 10,0%. Á síðasta vaxtaákvörðunarfundi lækkaði Seðlabankinn innlánsvexti um 0,5 prósentustig en lækkaði hæstu útlánsvexti, daglánavexti um 1,5 prósentustig.

Í spá IFS kemur fram að ákvörðun um Icesave hafi dregist á langinn og því er óvissan í efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar og IMF meiri en áður var. Á móti komi að vel hefur gengið að halda genginu stöðugu. Loks virðist verðbólgan vera að dragast hraðar saman en áður var talið og þar muni mestu um mikla lækkun á húsnæðisverði.