Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir það skyldu íslenskra stjórnvalda að athuga hvort vilji sé fyrir því að fara í tvíhliða upptöku Kanadadollars í ljósi atburða síðustu daga.

„Þeir sem hafa talað hvað mest fyrir því að ganga í ESB til þess eins að taka upp evru – og segja um leið að íslenska krónan sé ónýt – ættu í það minnsta að vera áhugasamir um að kanna þennan möguleika,“ segir Illugi aðspurður um það hvort rétt sé hefja viðræður við Kanadamen um upptöku Kanadadollars eins og mikið hefur verið í umræðunni að undanförnu. Illugi segist þó ekki treysta núverandi ríkisstjórn til að standa eina að þeim viðræðum.

Þá segir Illugi að hingað til hafi menn litið svo á að valið standi milli þess að halda í íslensku krónuna eða taka upp evru í framtíðinni. Hins vegar kunni viðræður við Kanadamenn að breyta þessu og vera til þess fallið að auka valmöguleika Íslendinga.

Illugi ítrekar þó að upptaka nýs gjaldmiðils leysi ekki öll vandamál og þá sé ekki loku fyrir það skotið að halda í krónuna, með öllum sínum kostum og göllum. Nýrri mynt fylgi líka vandamál og Kanadamenn séu einnig líklegir til þess að setja tvíhliða upptöku ströng skilyrði, t.d. ákvæði í takt við Maastricht sáttmálann eða samninga um samstarf þjóðanna vegna norðurslóða. Þá sé alls óljóst hvaða afleiðingu það hefði að fara ekki eftir þeim skilyrðum sem Kanadamenn kynnu að setja.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.