Ísland er nefnt sem hugsanlegur samstarfsaðili Bandaríkjanna á sviði rannsókna og þróunar varðandi nýtingu jarðhita í nýjum lögum um orkumál, sem afgreidd voru á Bandaríkjaþingi skömmu fyrir jól, að því er fram kemur í Stiklum, vefriti viðskiptasviðs utanríkisráðuneytisins.

Þar segir að ákvæði um það megi finna í kafla um að efla rannsóknir og þróun á þessu sviði. "Sá kafli byggir meðal annars á frumvarpi um þetta efni, sem var til umfjöllunar þegar Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, mætti á fund orku- og náttúruauðlindanefndar öldungadeildarinnar 26. september síðastliðinn," segir í vefritinu.

"Nýju orkulögin voru meðal helstu mála sem Bandaríkjaþing hafði til umfjöllunar á árinu 2007. Í 624. grein laganna er fjallað um alþjóðlega samvinnu um rannsóknir á jarðhitasviðinu og þar er Ísland nefnt sérstaklega sem hugsanlegur samstarfsaðili Bandaríkjanna ásamt nokkrum öðrum ríkjum. Þau eru Ástralía, Bretland, Frakkland, Indland, Japan og Kína," segir ennfremur.