Ísland stendur sig verst allra EES ríkjanna í að innleiða tilskipanir og reglugerðir Evrópska efnahagssvæðisins í landsrétt. Þetta kemur fram í nýju frammistöðumati Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) en slíkt mat er birt tvisvar á ári.

Innleiðingarhalli Íslands er 3,1% sem samsvarar því að 34 tilskipanir hafa ekki verið innleiddar að fullu á réttum tíma. Hallinn þegar síðasta frammistöðumat var gert var 3,2%. Í bæði skiptin var Ísland með langmesta innleiðingarhallann af öllum EES ríkjunum. Noregur stendur sig næst verst en þar er innleiðingarhallinn 1,9%. Það er því ekkert ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins sem kemst með tærnar þar sem Ísland hefur hælana varðandi lélegan árangur í innleiðingu EES-gerða.

Innleiðingarhalli EFTA ríkjanna þriggja, Íslands, Noregs og Lichtenstein, er 1,9% að meðaltali, samanborið við 0,7% í ESB ríkjunum.

Helga Jónsdóttir, stjórnarmaður í ESA, telur að léleg frammistaða Íslands og Noregs sé til þess fallin að grafa undan jafnræði sem innri markaðurinn byggist á. Það sé óviðunandi að löggjöf á svæðinu sé ekki samstæð.