Greiningardeild Íslandsbanka telur útlit fyrir 0,1% hækkun vísitölu neysluverðs (VNV) í nóvember. Gangi spáin eftir mun verðbólga mælast 3,6% og minnkar frá fyrri mánuði þegar hún var 3,7%. Verðbólgan er enn rúmu prósentustigi yfir verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands og nærri efri þolmörkum peningastefnunnar. Miðað við óbreytt gengi krónunnar og hóflegar forsendur um helstu áhrifaþætti má reikna með 3,5% verðbólgu yfir þetta ár og 3,1% yfir næsta ár.

Greiningardeildin telur líklegt að á næstu misserum muni verðbólgan haldast í efri hluta þolmarkanna sem peningastefnan miðast við, en innan þeirra. Óvissa langtímaspárinnar liggur þó meira til hækkunar í ljósi þrýstings á húsnæðisverð og hættu á gengislækkun.

"Spáin um 0,1% hækkun í nóvember byggir m.a. á forsendum um áframhaldandi hækkun húsnæðisverðs. Húsnæðisverð hækkaði verulega í september og sú hækkun skilaði sér af krafti í síðustu mælingu Í október hefur fermetraverð gefið eftir og því er ekki að búast við jafn mikilli hækkun í þetta skiptið, en húsnæðisliðurinn í VNV byggir á þriggja mánaða meðaltali. Bensínverð hefur lækkað lítillega frá því síðasta mæling fór fram og byggir þessi spá á núverandi verði. Heimsmarkaðsverð hefur hins vegar hækkað síðustu vikur og flest bendir til þess að olíufélögin muni hækka verð á næstunni. Ef það gerist áður en fyrstu tveir virku dagarnir í nóvember eru á enda og umfram verðið sem gilti síðustu mánaðarmót, þá kallar það á endurskoðaða spá. Bensínverðhækkun gæti því lyft spánni upp í 0,2% hækkun VNV. Hagstofan mun birta vísitölu neysluverð kl. 09.00 þann 10. nóvember næstkomandi," segir í Morgunkorni Íslandsbanka.