Íslandsbanki hefur veitt ferðaþjónustufyrirtækjunum Hybrid Hospitality og Arctic Surfers Hvatningarverðlaun Íslandsbanka. Þetta er annað skiptið sem Íslandsbanki veitir verðlaunin. Þau voru afhent samhliða ferðakaupstefnunni Iceland Travel Workshop (ITW) en Íslandsbanki er einn af aðalbakhjörlum ráðstefnunnar. Verðlaunaféð sem Hybrid Hospitality hlýtur eru 800 þúsund krónur. Arctic Surfers fékk 400 þúsund krónur.

Fram kemur í tilkynningu að markmið Hvatningarverðlauna Íslandsbanka er að efla og stuðla að nýsköpun og uppbyggingu hjá íslenskum ferðaþjónustufyrirtækjum. Auk þess að veita þennan styrk og taka þátt í ITW ráðstefnunni hefur Íslandsbanki einnig tekið virkan þátt í öðrum verkefnum sem tengjast ferðaþjónustunni, s.s. Inspired by Iceland, Iceland Naturally og Ísland er með‘etta. Auk þess er bankinn virkur aðili í ferðaþjónustuklasanum en markmiðið hans er að styðja við uppbyggingu öflugrar ferðaþjónustu á Íslandi.

Þrír aðilar með víðtæka reynslu og þekkingu á íslenskri ferðaþjónustu skipuðu dómnefnd sem valdi þau fyrirtæki sem hlutu Hvatningarverðlaunin. Formaður dómnefndar var Kristín Hrönn Guðmundsdóttir, forstöðumaður hjá Íslandsbanka, en auk hennar sátu í dómnefndinni Guðný Pálsdóttir, einn af eigendum og stofnendum IcelandREPS, og Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri.

Í tilkynningu Íslandsbanka segir að Hybrid Hospitality bjóði fyrirtækjum upp á aðstoð við að bæta þjónustu, markaðssókn, gæðamál og aðra tengda þjónustu í bland við áherslu á nýsköpun innan fyrirtækjanna. Arctic Surfers er svo fyrsta fyrirtækið á Íslandi sem býður upp á brimbrettaferðir. Starfsmenn Arctic Surfers leitast við að finna staði þar sem fáir hafa komið og enn færri hafa verið á brimbretti.