Íslenska fyrirtækið On Waves, sem er að stærstum hluta í eigu Símans, er eitt hið fyrsta í heiminum sem býður skemmtiferðaskipum og öðrum stórskipum uppsetningu á farsímakerfi á hafi úti. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Fyrirtækið þjónustar þegar hátt í 600 skip en þau stærstu rúma mörg þúsund farþega. Í þeim hópi er meðal annars skemmtiferðaskipið Celebrity Eclipse sem lagðist að bryggju í Reykjavík í gær.

"Í nær öllum stórum skipum er gervihnattasamband í gegnum svokallað VSAT-kerfi sem tryggir símasamband og internettengingu. Það sem við gerum er að umbreyta búnaðinum þannig að hægt sé að nota farsíma í gegnum þetta kerfi," segir Kristinn Ingi Lárusson, framkvæmdastjóri On Waves í frétt blaðsins. Hann segir einnig að fyrirtækið sé í dag sennilega þriðja stærsta fyrirtækið í þessum geira og með þeim fyrstu í heiminum til að bjóða þessa þjónustu.