Enn á ný eru skuldatryggingaálög íslensku bankanna til umfjöllunar í erlendum fjölmiðlum. Höfundur dálksins Lex í breska blaðinu Financial Times veltir því fyrir sér í dag hvort að einhver glóra sé í því hvernig markaðurinn metur álagið um þessar mundir.

Höfundur Lex rifjar það upp að skuldatryggingaálagið hafi farið í 100 punkta fyrir tveimur árum í kjölfar neikvæðrar umræðu um íslensku bankanna og efasemda um hvort að fjármögnun þeirra fengi staðist til lengdar. Bankarnir brugðust meðal annars við þessari umræðu með því að auka vægi innlána í fjármögnun sinni.

Bent er á að í síðustu viku hafi Glitnir hækkað um meira en 100 punkta á einum degi og að skuldatryggingaálagið hafi farið yfir þúsund punkta – Kaupþing og Landsbanki fylgdu í kjölfarið. Höfundur Lex segir að skuldatryggingaálagið á bönkum í Kasakstan sé lægra, en vinsælt virðist að spyrða það ágæta Miðasíuríki við Ísland um þessar mundir.

Skiptir þetta máli, spyr höfundur Lex og bendir á í framhaldinu að Kaupþing hafi tekist að fjármagna sig með sölu skuldabréfa til fagfjárfesta á lægri kjörum en skuldatryggingaálagið bendir til á dögunum. Þá er á það bent að þróunin á skuldatryggingaálaginu endurspeglist ekki í hlutabréfaverði íslensku bankanna.

Lex tekur undir þá skoðun að ástæðan fyrir þróun skuldatryggingaálagsins á íslensku bönkunum sé fyrst og fremst kerfislæg. Því er haldið fram í dálknum að hin mikla afvindun skuldarbréfavafninga og gírugra vogunarsjóða þrýsti upp álaginu þar sem margir slíkir sjóðir hafi verið yfirvigtaðir í hávaxtafjármálagjörningum. Þetta ástand ýkir allar verðsveiflur á grunnum markaði með skuldatryggingarálög.

Þrátt fyrir þetta segir höfundur Lex að álagið á skuldatryggingar bankanna skipti máli. Fram kemur í pistlinum að gjalddagar Kaupþings og Landsbankans séu ekki íþyngjandi á þessu ári. Hinsvegar gætu þeir lent í vanda á næsta ári verði kostnaðurinn við vogun enn hár. Vitnað er í tölur frá CreditSights um að þeir muni þurfa að endurfjármagna 25% og 29% af langtímaskuldbindingum sínum á næsta ári og að fjárfestar kynnu að vera tregir í taumi að kaupa skuldabréf þeirra.

Þrátt fyrir þetta segir höfundur Lex að bankarnir hafi bæði tíma og úrræði fram til næsta árs. Hann segir að forráðamenn Kaupþings bindi vonir við að ljúka fjármögnun næsta árs í september með eignasölum og vexti í innlánum.

Í Lex er því fleygt fram að greining á þróun skuldabréfaálags íslensku bankanna flokkist frekar undir íþrótt fremur en vísindi. Álagið virðist vera löngu komið úr takt við raunveruleikann.

Eins og fjallað hefur verið um í Viðskiptablaðinu að undanförnu telja margir sérfræðingar að slíkt hið sama gildi yfir mörg önnur fyrirtæki, sem búa við mun lægri álög. Margir telja að þau fylgnilíkön sem stuðst er við verðmat á skuldatryggingaálagi gefi kolranga mynd af raunveruleikanum um þessar mundir.

Fært hefur verið fyrir því rök að eðli slíkra líkana sé að vanmeta álögin í uppsveiflu og svo ofmeta þau í niðursveiflu.