Hagvöxtur var í Japan á öðrum fjórðungi ársins eftir fjögurra ársfjórðunga samdrátt í röð. Með hagvexti nú er lokið lengsta samdráttarskeiði í landinu frá því í síðari heimsstyrjöldinni, að því er segir í frétt WSJ.

Japan er annað stærsta hagkerfi heimsins og hagvöxtur þar er nýjasta vísbendingin um að hagkerfi heimsins sé að rétta úr kútnum eftir kreppuna.

Hagvöxturinn nam 0,9% á fjórðungnum, en samsetning talnanna veldur áhyggjum, því að það er ekki innlend eftirspurn sem dregur vagninn. Þess í stað eru það birgðabreytingar, vaxandi útflutningur og opinber útgjöld sem skýra hagvöxtinn, en þetta bendir til kerfislægra vandamála sem kunna að grafa undan japanska hagkerfinu, að því er segir í frétt WSJ.