Kauphallirnar í Tokyo og Osaka munu sameinast árið 2013, að því er BBC greindi frá í dag. Eftir samrunann verður til þriðja stærsta kauphöll heims.

Ástæðan eru minnkandi umsvif á japönskum hlutabréfamarkaði, bæði er varðar veltu og nýskráningar fyrirtækja. Sala á nýútgefnum hlutabréfum í Japan á þessu ári nam um 550 milljónum dala, samanborið við 39 milljarða dala í Kína.

Viðræður um samrunann hafa staðið yfir allt frá því að Kína tók fram úr Japan sem annar stærsti hlutabréfamarkaður í heimi og er samruninn tilraun til að viðhalda stöðu Japans í alþjóðlegum hlutabréfaviðskiptum.