Það væri ekki gott fyrir þjóðina ef Sjálfstæðisflokkurinn kæmist til valda á eftir núverandi ríkisstjórn og mikið fylgi við Sjálfstæðisflokkinn í skoðanakönnunum er áhyggjuefni.

Þetta sagði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, í viðtali á Rás 2 rétt í þessu. Þar var Jóhanna meðal annars spurð um aðkomu ESB að dómsmáli vegna Icesave sem nú liggur fyrir EFTA dómsstólnum, skuldamál heimilanna, bága stöðu Samfylkingarinnar í skoðanakönnunum, samstarvið við VG og fleira.

Aðspurð um nýjasta Þjóðarpúls Capacent, þar sem Samfylkingin mælist aðeins með 17,5% fylgi, sagði Jóhanna að ríkisstjórnin hefði tekist á við mörg erfið verkefni og að fylgi myndi skila sér á ný til Samfylkingarinnar. Hún ítrekaði að núverandi ríkisstjórn hefði þurft að „moka flórinn“ eftir það sem á undan var gengið og það hafi vissulega reynst mikil áskorun.

Þá tók Jóhanna sérstaklega fram að sér fyndist mikið áhyggjuefni hvað Sjálfstæðisflokkurinn væri að mælast hár í skoðanakönnunum og það væri alls ekki gott fyrir þjóðina ef að hann kæmist til valda. Hún sagði að á næstu misserum myndi ríkisstjórnin einbeita sér að málum sem hún segir stór og mikilvæg, s.s. breytingar á fisveiðistjórnunarkerfinu, breytingar á stjórnarskrá og fleira.