Hæstaréttardómari Jón Steinar Gunnlaugsson er hæstánægður með bók Óla Björns Kárasonar, „Síðasta vörnin.“ Jón Steinar skrifar umfjöllun um bókina í aðsendri grein sem birt er á leiðaraopnu Morgunblaðsins í dag.

Síðasta vörnin
Síðasta vörnin
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Á baksíðu bókarinnar segir um efni hennar að þar séu rakin dæmi um óheilbrigða viðskiptahætti sem þrifust í skjóli dómanna í Baugsmálinu og leitt að því líkum að dómarnir hafi orðið til þess að sumt sem áður var talið ólöglegt í viðskiptum sé nú talið löglegt. Það hafi síðan dregið kraft úr þeim sem unnu að rannsókn hugsanlegra efnahagsbrota.

Óli Björn kemst svo að þeirri niðurstöðu að dómstólarnir hafi borið mikla ábyrgð á þeim viðskiptaháttum sem tíðkuðust hér í aðdraganda hrunsins og gagnrýnir að ekkert hafi verið fjallað um starfsemi dómstóla í skýrslu Rannsókarnefndar Alþingis.

Jón Steinar skrifar í grein sinni:

„Bók Óla Björns er afar athyglisverð, svo ekki sé meira sagt. Ég tel ekki við hæfi að lýsa skoðunum mínum á einstökum efnisatriðum sem þar er fjallað um. Ég læt það hins vegar eftir mér að fagna því að svona bók skuli vera skrifuð. Hæstiréttur er stofnun sem fer með afar þýðingarmikið þjóðfélagsvald. Við sem þar störfum þörfnumst ekki síður en handhafar ríkisvalds á öðrum sviðum þess aðhalds sem felst í málefnalegri gagnrýni á störf okkar. Það er að mörgu leyti styrkur fyrir bókina að höfundur hennar skuli ekki vera lögfræðingur. Skipulag og starfsemi dómstóla er ekki einkamál lögfræðinga. Umfjöllun um þetta efni á brýnt erindi við almenning. Það er líka hætta á að lögfræðimenntaðir menn missi stundum sjónar á meginatriðum sem þetta varða, þar sem þeir vilja oft verða uppteknir af því að velta fyrir sér smærri tæknilegum atriðum í dómsýslunni fremur en að fjalla um stóru myndina sem Óli Björn virðir fyrir sér. Þeir sjá þá ekki skóginn fyrir trjánum.“

Baugsmálið úrskurður Hæstaréttar
Baugsmálið úrskurður Hæstaréttar
© Haraldur Jónasson (VB MYND/HARI)