Færeyska fjarskiptafyrirtækið Kall, sem er í eigu Íslendinga, hefur tekið upp nýtt nafn og starfar frá og með deginum í dag undir nafni Vodafone. Samhliða nafnabreytingunni verður Vodafone í Færeyjum gert að dótturfélagi Vodafone á Íslandi, en bæði fyrirtækin eru í eigu eignarhaldsfélagsins Teymis hf.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vodafone.

Í tilkynningunni segir Bjarni A. Bjarnason, forstjóri Vodafone í Færeyjum, það mikinn heiður fyrir starfsfólk Kalls að alþjóðafyrirtækið Vodafone skuli semja við Kall um samstarf.

„Með því að gerast hluti af stærsta farsímafyrirtæki í heimi getum við boðið okkar viðskiptavinum betri og fjölbreyttari þjónustu en áður hefur þekkst í Færeyjum,” segir Bjarni.

„Okkar viðskiptavinir munu njóta góðs af vörum og þjónustuleiðum sem Vodafone hefur þróað um allan heim og lægra verði fyrir farsímaþjónustu.”

Undirbúningur vegna breytinganna sem kynntar voru í dag hefur staðið í tvö ár. GSM dreifikerfi fyrirtækisins var uppfært til samræmis við kröfur Vodafone, verkferlar endurhannaðir og þjónustan endurbætt. Fjölmargar nýjungar standa einnig viðskiptavinum Vodafone í Færeyjum til boða, t.d. BlackBerry-þjónusta sem Færeyingar hafa ekki notið hingað til.