Skuldir kanadískra heimila hækkuðu umfram verga landsframleiðslu síðastliðinn september í fyrsta skipti. Skuldirnar fóru úr 98,7% af VLF á fyrsta ársfjórðungi í 100,5% á öðrum ársfjórðungi, og eru nú 170,5% af ráðstöfunartekjum borið saman við 141,3% á öðrum ársfjórðungi 2007. Skuldir á lánamarkaði, á borð við húsnæðislán, standa í 167,6% af ráðstöfunartekjum.

Meðal G7-ríkja eru skuldir kanadískra heimila af VLF hæstar, en næst koma Bretland (87,4%) og Bandaríkin (78,4%) miðað við fyrsta ársfjórðung, en hlutfallið var 59% á evrusvæðinu. Á sama tíma er hlutfall skulda hins opinbera af VLF í Kanada (91%) lægra en í Japan (229%), á Ítalíu (138%), í Bandaríkjunum (104%) og Frakklandi (96%) en svipað og á evrusvæðinu.

Alls búa um 36,4 milljónir manna í Kanada. Samanlagðar skuldir ríkis, fyrirtækja og heimila í Kanada nam 5,9 þúsund milljörðum Kanadadollurum á fyrsta ársfjórðungi eða um 500 þúsund milljörðum króna. Brúttó skuldir á mann eru því tæplega 121 þúsund dollarar eða um 13,8 milljónir króna. Hlutfall samanlagðra skulda af VLF í Kanada nemur 288%, sem er hærra en hlutföll Bandaríkjanna, Bretlands og Ítalíu.

Lágir vextir og stöðugur vinnumarkaður

Undirstaða vaxandi skuldsetningar í Kanada eru lágir vextir og stöðugur vinnumarkaður. Kostnaður við lántöku er lágur, en stýrivextir Kanadíska Seðlabankans hafa verið undir 1% frá 2009 og standa nú í 0,5%. Vextir á húsnæðislánum til eins árs og þriggja ára voru að meðaltali 3,14-3,39% í september borið saman við 6,65-6,7% í september 2008, og vextir á 5-ára húsnæðislánum voru að meðaltali 4,64% en 6,85% í september 2008. Á sama tíma er atvinnuleysi 7%, en atvinnuleysið hefur verið 7,7% að meðaltali frá 1966.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið á pdf-formi undir Tölublöð .