Tæplega helmingur félaga sem skráð eru á Aðalmarkað Kauphallarinnar, eða átta af tuttugu, hefur á þessu ári og því síðasta greint frá áformum um að setja á fót kaupréttarkerfi eða annars konar bónuskerfi fyrir starfsfólk sitt. Í sumum tilfellum er um að ræða kaupréttar- eða bónuskerfi sem ná einungis til stjórnenda og lykilstarfsfólks, en ná í öðrum tilfellum til alls starfsfólksins.

Af þeim félögum sem greint hafa frá ofangreindum áformum á þessu ári reið Icelandair á vaðið. Þann 10. febrúar kom fram í einum af fundarliðum fyrir aðalfund félagsins sem fram fór síðastliðinn fimmtudag í dag að stjórn Icelandair legði til að sett yrði á fót hvatakerfi fyrir lykilstarfsmenn flugfélagsins, sem og kaupréttarkerfi. Hluthafafundur sammþykti tillöguna og mun félagið því gefa út allt að 250 milljónir hluti í ár og 900 milljónir hlutir á þriggja ára tímabili fyrir kaupréttarkerfið. Hvatakerfið felur í sér bónusgreiðslur sem geta numið allt að 25% af árslaunum lykilstarfsmanna. Þá verður þeim boðnir kaupréttir að hlutum í Icelandair sem miðast við lokagengi á þeim degi sem kaupréttirnir verða veittir að viðbættum 3% árlegum vöxtum. Hægt verður að innleysa kaupréttina að þremur árum liðnum og veltur fjöldi útgefinna hluta á frammistöðu félagsins.

Þrjú félög bætast í hópinn

Sex dögum síðar kom fram í tillögum stjórnar Símans fyrir aðalfund félagsins, sem fram fer næstkomandi fimmtudag, að sett yrði á fót kaupréttaráætlun, bæði fyrir alla fastráðna starfsmenn félagsins og dótturfélaga, að Mílu undanskilinni, og svo önnur fyrir forstjóra og lykilstjórnendur. Slær stjórnin þó þann varnagla að þetta verði aðeins gert ef fyrir liggi endanleg sala á dótturfélaginu Mílu. Verði tillagan samþykkt verða gerðir kaupréttarsamningar við þá starfsmenn sem það kjósa, sem heimilar þeim að kaupa hluti í félaginu að andvirði 1,5 milljóna króna á hverju ári í þrjú ár frá veitingu kaupréttar.

Bendir stjórn Símans á að kaupréttir njóti sérstaks skattalegs hagræðis fyrir starfsmenn, þar sem allar tekjur vegna þeirra séu skattlagðar sem fjármagnstekjur að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Kauprétti verður fyrst hægt að nýta er tólf mánuðir hafa liðið frá gerð kaupréttarsamnings og starfsmenn verða að eiga keypta hluti í tvö ár hið skemmsta, vilji þeir nýta skattalegar ívilnanir sem í áætluninni felast.

Þá lagði stjórnin til að sérstök kaupréttaráætlun yrði gerð fyrir forstjóra, æðstu stjórnendur og lykilstarfsmenn að því gefnu að endanleg sala á Mílu liggur fyrir en hún er háð samþykkis Samkeppniseftirlitsins. Verði tillagan samþykkt verður stjórninni heimilt að veita kauprétti að allt að 75 milljónum hluta í Símanum.

Degi eftir að stjórn Símans lagði fram fyrrgreinda tillögu um kauprétti fetuðu stjórnir Skeljungs og Eimskips í fótspor stjórnar Símans og lögðu í ályktunartillögu fyrir aðalfund til að kaupréttarkerfi fyrir lykilstarfsmenn yrði tekið upp. Verði tillagan samþykkt verður stjórn Skeljungs heimilt að gefa út allt að 5% af útgefnu hlutafé í kauprétti á árunum 2022-2027. Tillaga stjórnar Eimskips nær svo til 1,5% af heildarhlutafé félagsins í dag.

Markmið stjóra félaganna fjögurra með kaupréttarkerfunum er á svipuðum nótum, þ.e. að tengja saman hagsmuni starfsmanna við hluthafa. Auk þess hjálpi kerfið til við að laða að hæft starfsfólk og halda því innan félagsins á samkeppnishæfum kjörum.

Útgerðarfélagið Brim ákvað að feta aðrar slóðir en áðurnefnd félög. Í uppgjörstilkynningu félagsins sem birtist fyrir viku kemur fram að stjórn Brims hafi ákveðið að afhenda fastráðnu starfsfólki félagsins og dótturfélaga hluti í Brimi í samræmi við starfsaldur hjá félaginu. Áætlað er að þetta séu um sex milljónir hlutir.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .