Kauphallarsamstæðan Nasdaq OMX, sem Kauphöll Íslands er hluti af, hefur lagt fyrir viðskiptavini sína ánægjukönnun, með það að markmiði að bæta samstarfið, að því er fram kemur í könnunargögnum sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum.

Þar er meðal annars spurt: „Ímyndaðu þér kauphöll sem er fullkomin að öllu leyti. Hversu nálægt slíkri kauphöll kemst NASDAQ OMX?“

Það er nokkuð athyglisverð spurning fyrir íslenska aðila í ljósi þess að mörg fyrirtæki hafa sótt um afskráningu á árinu, hlutabréf hafa fallið í verði í fjármálakrísunni og að lokað hefur verið fyrir viðskipti með bréf fjármálafyrirtækja nema Atorku Group (en hluthafafundur fjárfestingafélagsins hefur samþykkt afskráningu) á meðan viðskipti með rekstrarfélögin eru enn virk.

Fyrir opnun markaða 10. október stöðvaði Fjármálaeftirlitið viðskipti með: Exista, Glitnir, Kaupþing, Landsbankinn, Straumur-Burðarás og Spron. Ýmislegt hefur gerst síðan: Glitnir, Kaupþing og Landsbankinn voru þjóðnýttir og Exista sótt um afskráningu. Fjármáleftirlitið stöðvaði viðskipti með fjármálafyrirtækin því það telur að fjárfestar búi hugsanlega yfir mismiklum upplýsingum.

Sameining Nasdaq og OMX góð?

Jafnframt er spurt hvort um hvort samruni NASDAQ og OMX hafi skilað góðum árangri?

Í þakklætisskyni fyrir að taka þátt í könnuninni veitir kauphallarsamstæðan framlag til hjálparsamtaka sem þátttakendur velja. Valið stendur á milli Rauða krossins,  Lækna án landamæra  og Velferðarsjóðs barna með krabbamein.  Ekki kom fram í könnunni hve hátt framlagið er.

Ekki náðist í samskiptastjóra Kauphallar Íslands við vinnslu fréttarinnar.