*

fimmtudagur, 15. apríl 2021
Innlent 21. mars 2014 08:52

Könnun: Meirihluti landsmanna vill léttvín í stórmarkaði

Skörp skil á afstöðu kynjanna til sölu áfengis í verslunum.

Trausti Hafliðason
Birgir Ísl. Gunnarsson

Alls eru 60,7% landsmanna hlynnt sölu léttvíns í stórmörkuðum, 29,6% eru frekar eða mjög andvíg og 9,7% eru hvorki hlynnt né andvíg. Þetta kemur fram í nýrri könnun sem MMR (Markaðsog miðlarannsóknir) gerði fyrir Viðskiptablaðið. Mun fleiri karlar en konur eru hlynntir því að leyft verði að selja léttvín í stórmörkuðum. Alls eru 50,5% karla „mjög hlynnt“ sölu léttvíns í stórmörkuðum en 28,9% kvenna. Munurinn minnkar þegar teknir eru inn í reikninginn þeir sem eru „frekar hlynntir“ sölu léttvíns. Þannig eru 66,3% karla mjög eða frekar hlynnt sölu léttvíns í stórmörkuðum en 54,7% kvenna.

Mjög skýr munur er á afstöðunni til sölu léttvíns í stórmörkuðum eftir aldri. Í heildina litið eru þeir yngri mun hlynntari sölu léttvíns í stórmörkuðum en þeir eldri. Þannig eru um 79% fólks á aldrinum 18 til 29 ára mjög eða frekar hlynnt þessu. Til samanburðar eru 65% fólks á aldrinum 30 til 49 ára sömu skoðunar, 47% fólks á aldrinum 50 til 67 ára og 31% fólks sem er 68 ára og eldra. Svörin voru einnig flokkuð eftir starfi og þá kemur í ljós að námsmenn skera sig úr. Um 75% þeirra eru mjög eða frekar hlynnt sölu léttvíns í stórmörkuðum. Stjórnendur eru næst hlynntastir þessu en ríflega 63% þeirra eru mjög eða frekar hlynnt því að bjóða eigi upp á léttvín í stórmörkuðum. Þeir sem eru ekki útivinnandi eru mótfallnastir þessari ráðagerð en einungis 45% þeirra vilja léttvín í stórmarkaði.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .

Stikkorð: ÁTVR