Náttúruverndarsinnar og fleiri stóðu við Þjóðmenningarhúsið og kölluðu á Ragnheiði Elínu Árnadóttur iðnaðarráðherra að leyfa enga olíuvinnslu þegar hún kom þangað í dag til að veita með formlegum hætti þriðja leyfið til olíuleitar á Drekasvæðinu. Þetta var jafnframt síðasta leyfið sem félög fá til olíuleitar á Drekasvæðinu. Félögin sem fá leyfið eru félögin Cnooc Iceland, Petoro og Eykon Energy  Petoro er norskt en Eykon Energy er í eigu fjárfestisins Heiðars Más Guðjónssonar, Gunnlaugs Jónssonar og Terje Hagevang.

Orkustofnun hafði í janúar síðastliðinn veitt annars vegar Faroe Petroleum Norge AS, Íslensku kolvetni ehf. og Petoro Iceland AS og hins vegar Valiant Petroleum ehf. [nú Ithaca Petroleum ehf.], Kolvetni ehf. og Petoro Iceland AS sérleyfi á Drekasvæðinu.