Eitt stærsta fyrirtæki landsins var til í september í fyrra þegar N1 festi kaup á Festi og félögin voru sameinuð undir nafni þess síðarnefnda. Krónan var stærsta fyrirtækið innan Festi en auk þess voru Elko , Bakkinn vöruhús og Festi fasteignir einnig hluti af samstæðunni.

Það er þekkt í viðskiptalífinu bæði hér heima og erlendis að sameiningar fyrirtækja reynast oft á tíðum erfiðar og hafa rannsóknir sýnt að um 70-80% samruna skila ekki þeim samlegðaráhrifum sem ætlast var til. Að sögn Eggerts Þórs Kristóferssonar, forstjóra Festi, hefur sameining félaganna gengið vonum framar en mikil vinna hafi legið þar að baki.

„Þetta hefur í raun gengið betur en við áttum von á,“ segir Eggert Þór. „Það sem við gerðum var að fá til okkar erlendan ráðgjafa sem hafði starfað við svona mál hjá Deloitte í London og hann var með okkur í um tvo mánuði við að undirbúa samrunann. Það sem kom út úr því var eins konar vegvísir sem var í raun 365 daga plan þar sem við vorum að tryggja að við myndum ekki detta í þær holur sem fyrirtæki í þessum aðstæðum detta almennt í.

Lykilatriði var að við vorum að sameina tvö félög með því að taka móðurfélagið Festi inn í N1 og breyttum nafni sameinaðs félags í Festi en færðum svo rekstur N1 í sér félag. Með þessu tryggðum við að það væri mjög skýrt hvað hvert dótturfélag ætti að gera. Við tókum mannauðsmál, upplýsingatækni, allan rekstur og fjármálasvið í móðurfélagið á meðan dótturfélögin eru með innkaup, sölu- og markaðsmál. Við vorum því ekki að sameina öll félögin í eitt eins og oft er gert. Að mínu mati hefur þetta verið lykilatriðið að hvert félag er sjálfstætt og keyrir sína stefnu. Til þess að tryggja að vel gengi í hverju félagi fyrir sig þá er þessi ferskleiki sem er til staðar mjög mikilvægur þar sem við erum að gefa þessum félögum mikið sjálfstæði en fá svo þjónustu og hagkvæma fjármögnun frá móðurfélaginu."

Reyndu ekki að breyta kúltúrnum

„Okkar aðferðafræði hefur því verið ólík því sem oft er gert, þ.e. að sameina tvö fyrirtæki í eitt. Við höfum ekki verið að reyna að færa kúltúrinn hjá N1 í Krónuna eða öfugt. Við erum að láta hvert fyrirtæki vera á sínum markaði enda eru þetta allt markaðslega sterkir aðilar. Þó við séum ekki þeir allra stærstu þá eru þetta stór félög og við erum í raun að hlúa að því.“

Eggert segir að þrátt fyrir að umsvif móðurfélagsins hafi ríflega þrefaldast á síðustu árum sé það einnig mjög skilvirkt. Um 140 manns unnu í höfuðstöðvum félagsins þegar Eggert hóf störf þar árið 2011. „Í dag starfa 118 í höfuðstöðvum Festi en á sama tíma hefur veltan farið úr tæplega 30 milljörðum í um 98 milljarða á þessu ári. Móðurfélagið er mjög skilvirkt, veitir mjög góða þjónustu og uppfyllir þær kröfur sem dótturfélögin hafa sett fram í sinni stefnumótun. Svo erum við að keyra reksturinn í hverju félagi mjög vel með þeim, þ.e. við styðjum við þau og tryggjum að þau haldi sér á þeirri stefnu sem hefur verið mótuð. Stefna hvers félags kemur hins vegar ekki frá móðurfélaginu heldur hefur hvert og eitt lagt stefnu fyrir okkur sem við förum yfir þannig að hún er samþykkt en síðan er bara gengið til verks.“

Eins og flestir lesendur vita þá hlaut Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar, viðskiptaverðlaun Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar á mánudaginn. Gengi Krónunnar hefur verið gott á síðustu misserum og hefur rekstur félagsins verið yfir áætlunum ársins. Að mati Eggerts tókst fyrirtækinu að finna syllu á markaðnum sem viðskiptavinir voru að leita eftir.

„Við fórum í stefnumótunarvinnu eftir að við gengum frá kaupunum og tókum uppfærslu á því sem þessi félög hafa verið að gera. Krónan hefur verið á gríðarlega góðri ferð. Það er vöxtur hjá félaginu þrátt fyrir að við séum ekki að fjölga búðum í einhverju mæli.

Maður sá það strax að stjórnendur Krónunnar voru búnir að móta sér stefnu sem felst í að bjóða fólki upp á lágvöruverðsverslun en samt með meiri gæðum og ferskleika heldur en samkeppnisaðilar okkar. Verðmunurinn er ekki mikill en upplifun viðskiptavinarins er allt önnur. Við fundum því syllu þarna sem viðskiptavinurinn er að leita eftir og það er lykilatriði í svona stefnumótun þegar fyrirtæki finna fjölina með viðskiptavinum.

Þetta hefur verið ótrúlega lærdómsríkt fyrir mig að vinna með þessu fólki, þetta er mjög öflugur hópur og það sama má segja um öll dótturfélögin okkar. Þetta er gífurlega ferskur hópur, með mikinn sigurvilja og góðan málstað sem alltaf er gott að hafa í rekstri.“

Spurður hvernig hann sjái Krónuna þróast á næstu misserum segir Eggert að það séu mikil tækifæri til staðar sem Krónan sé í góðri stöðu til að grípa.

„Smásala mun þróast ótrúlega mikið, þetta er mjög skemmtilegur geiri að eiga við og það eru miklir möguleikar fyrir Krónuna að grípa þau tækifæri sem eru til staðar til að ná stærri hluta af kökunni. Félagið er í vexti og mun vaxa áfram. Það er engin spurning að innkaup í smásölu munu öll færast í Krónuna sem þýðir að félagið mun sjá um innkaup fyrir N1 þegar kemur að matvöru og þar eru líka tækifæri eftir sem munu raungerast á næstu misserum.“

Nánar er fjallað um málið í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem er nýkomið út.