Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra á von á því að frumvörpum um breytingar á kvótakerfinu verði dreift á Alþingi í dag. Hún sagðist vona að frumvarpið  sem er minna að sniðum, og snýr meðal annars að strandveiðum, verði afgreitt í vor. Hið stærra, sem fjalli um kerfisbreytingar, fari til umræðu á þingi og innan þingnefnda. Vonir Jóhönnu eru að hægt verði að afgreiða það á haustþingi eða í september.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, spurði um málið á óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Hann sagði málið orðið mikið klúður. Drög að frumvarpinu liggi um allan bæ en ráðherra hafi ekki þorað að leggja málið fyrir þingið.

Bjarni sagði venjuna vera þá að þegar stjórnarflokkar afgreiði stjórnarfrumvörp þá séu þau lögð fram á Alþingi. Hann spurði hvort frumvarpið væri ekki tilbúið, þrátt fyrir að hafa verið afgreitt úr ríkisstjórn.